Í gær fór ég á frábæran fyrirlestur hjá Josua Becker, manninum á bakvið Becoming minimalist. Ég heillaðist þvílikt af honum, og þessir 3 klukkutímar liðu eins og nokkrar mínútur. Hann sagði m.a frá ástæðum þess að hann ákvað að hella sér út í þennan lífstíl, hvað hann gerði til þess, hvaða áhrif það hefur haft á hann og fjölskylduna. Hann talaði þannig að ef einhver hafði efasemdir um kosti þessa minimalíska lífstíls, er ég viss um að sú manneskja hefur gengið út af fyrirlestrinum með breytt hugarfar.
Það er einn punktur sem hann kom inná, sem mig langar að fjalla um í þessari færslu. Það eru viðbrögð fólks og (rang?)hugmyndir þeirra um hvað minimalískur lífstíll sé. Þegar Becker fékk “hugljómun” og hringdi spenntur í mömmu sína til að tilkynna henni það að nú ætlaði hann að gerast minimalisti – voru viðbrögð hennar á þessa leið
Æjjh.. Joshua.. ertu viss?? Ég var að horfa á þátt í sjónvarpinu um daginn og þar kom fram að minimalistar kaupa sér ekki mat í búðum, þau borða allt upp úr ruslagámum!
Þetta er kannski svolítið ýkt dæmi, en gefur samt ákveðna hugmynd um þær staðalímyndir sem sumir virðast enn hafa um svokallaða minimalista. Einhverjir halda að minimalismi snúist um það að neita sér um alla veraldlega hluti, eða þurfa að losa sig við allt sem þeir eiga mikið af. Ég ræddi þetta lengi við vinkonu mína í gær en við höfum báðar upplifað einhvern svona misskilning. Það er ekki langt síðan að hún lenti í rökræðum við manneskju sem sagði hana ekki vera minimalista, því hún hefði lesið einhverstaðar að ef maður ætti fleiri en 100 hluti væri maður ekki minimalisti.
Ímyndum okkur að einhver segist lifa skemmtilegum lífstíl. Eða flottum lífstíl. Það er mjög opið hugtak – en ég hugsa að þetta sé ágætis líking. Sigga út í bæ finnst gaman að stunda sjóskíði, fara í útilegur og lesa bækur. Hann gerir mikið af þessum hlutum og hefur gaman af. Honum finnst hann því lifa skemmtilegum lífstíl. Gunnu hinsvegar finnst fátt leiðinlegra en að fara í útilegur og les aldrei bækur. Henni finnst gaman að fjallgöngum og að fara í ræktina. Þau geta bæði lifað skemmtilegum lífstíl þrátt fyrir að hann sé ólíkur.
Alveg eins og með minimimalisma. Það er svo misjafnt milli manna hver hvatinn okkar er. Eins og Becker skilgreinir hann
minimalismi er tól sem gerir okkur kleift að einbeita okkur að því sem við höfum ánægju af – með því að fjarlægja það sem gerir það ekki.
Minimalisti má því eiga 2000 bækur, ef þær veita honum hamingju. Minimalisti má meirasegja eiga 100 skópör, eða eins mörg og hann vill á meðan honum langar til þess. Minimalisti má eiga svo fáa hluti að þeir passa allir í eina ferðatösku. Minimalisti þarf ekki að láta frá sér neitt sem hann virkilega langar til að eiga. Minimalistar borða ekki uppúr ruslagámum (nema þeir vilji það) Minimalistar eru nefninlega allskonar
Ég hef aldrei lent í neinum rökræðum eða álíka, þvert á móti upplifi ég nánast bara jákvæðni og áhuga fyrir þessum lífstíl í kringum mig. Það er helst að ég fái einhver skot ef ég hitti fólk í Kringlunni eða Ikea, hva – mátt þú vera hér? Ertu ekki minimalisti? Alveg eins og margir sem lifa heilbriðgum lífstíl og borða alla jafna hollan mat, þá fá þeir að heyra Hva- máttu borða þetta? Ef þeir fá sér köku 🙂 En ég veit að langflestir gera sér grein fyrir því að minimalískur lífstíll sé mjög opið hugtak, og í raun held ég að flestir gætu fundið sig á einhvern hátt í honum. Finnst ekki öllum góð tilhugsun að eiga drasl-frítt heimili, aukna hamingju og lífsgæði, spara peninga svo fátt eitt sé nefnt…? Það held ég 🙂
Annars langar mig að benda ykkur á það að á miðvikudaginn næstkomandi (21.feb) verð ég í Ísland í dag, en hún Vala Matt kíkti á mig og tók út skápana á heimilinu og spjallaði við mig um þennan frábæra lífstíl sem ég mæli svo með. Endilega fylgist með því!
Þar til næst…
Instagram & Snapchat: margretbjork